Jafnrétti og nýsköpun – Just consulting
26. maí 2021

Jafnréttisiðnaðurinn

Jafnréttisiðnaður er eitt margra skammaryrða sem rifjast upp þegar ég hugsa um mín fyrstu skref sem aðgerðarsinni á opinberum vettvangi. Þetta var uppúr aldamótum, skömmu eftir að Femínistafélag Íslands hafði verið stofnað. Þá höfðu hundruð kvenna úr ólíkum áttum komið saman, langþreyttar á þögninni sem hafði hulið þrúgandi misrétti, u.þ.b. frá því Kvennalistinn leið undir lok.

Femínistafélagið leysti ótrúlegan kraft úr læðingi. Konur fundu skjól, stuðning og valdeflingu. Félagið beitti sér með fjölbreyttum aðgerðum á mörgum ólíkum sviðum. Í þessari deiglu fór ég að taka mér pláss, meðal annars með bloggi sem vakti mismikla lukku meðal lesenda. Það var þá sem ég kynntist hugtakinu.

Jafnréttisiðnaðurinn var hvergi beint skilgreindur en hugtakið kom upp í margvíslegu samhengi. Greinilegur ótti var við opinber afskipti og íþyngjandi kvaðir á fyrirtæki og einstaklinga. Kynjafræði á háskólastigi var úthrópuð sem kjaftaklúbbsafkimi jafnréttariðnaðarins. Það þótti óviðeigandi að ætlast til þess að stefnumótun væri framfylgt og öryggi fólks tryggt, t.d. með jafnréttisnefndum og jafnréttisfulltrúum. Eftirlit með aðgerðum þótti varhugavert, s.s. útgáfa kyngreindra tölfræðiupplýsinga. Það þótti ótækt með öllu að fara að þenja út báknið með því að ráða inn fólk sem sérhæfði sig í þessum málum.

Breytt móttökuskilyrði

Í dag, 20 árum seinna, eru kyngreindar tölfræðiupplýsingar lögbundnar sem og jöfn kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja. Jafnlaunavottun er skylda og aðgerðaáætlanir gegn einelti, áreitni og ofbeldi þykja sjálfsagðar. Jafnréttisnefndir og/eða jafnréttisfulltrúar hafa verið skilgreind á flestum vinnustöðum. Framhaldsskólar bjóða upp á námskeið í kynjafræði, greinin blómstrar á háskólastigi og kjaftaklúbbsummælin hafa verið fjarlægð af internetinu.

Í dag, 20 árum seinna, upplifi ég mig ekki sem andófsmanneskjuna sem ég þótti vera í gamla daga. Ég er ekki lengur bloggarinn sem benti óþægilega hluti sem fólk vildi ekki horfast í augu við. Ég er ekki heldur stjórnmálakonan sem truflaði umræður um efnahagsforsendur og uppbyggingarmöguleika með femínískum áherslum. 

Þvert á móti er ég sérfræðingur sem finn fyrir vaxandi eftirspurn eftir sérfræðiþekkingu á sviði kynja- og fjölbreytileikafræða. Ég mæti þörfum viðskiptavina með fræðslu, greiningum og tillögum að úrbótum á öllu sem viðkemur jafnrétti og fjölbreytileika á vinnustöðum. Ég segi nákvæmlega sömu hlutina og ég gerði fyrir 20 árum, en móttökuskilyrðin hafa breyst. Jafnrétti og nýsköpun - Just consulting eftir Sóley Tómasdóttir


Saga kvennastétta

Saga jafnréttisiðnaðarins er ekki frábrugðin sögu annarra kvennastétta. Saga ræstinga, uppeldis, umönnunar og hjúkrunar eru saga af vinnu sem lengst af var ólaunuð. Vinnu sem ekki var talin krefjast þekkingar eða færni, heldur aðeins einhverskonar eðlishvatar sem varðaði hreinlæti, umhyggju eða fórnfýsi. 

Vinnu sem átti að vinnast í hljóði og þegar fólk sá ekki til, helst innan veggja heimilanna. Hún átti ekki að trufla vinnandi menn og hún átti alls ekki að kosta peninga. 

Svo breyttist það. Ekki af sjálfu sér, heldur vegna ötullar baráttu kvenna. Vegna samtakamáttar kvenna, Rauðsokka og verkakvenna sem skipulögðu kvennafrídaginn 1975 og hafa síðan þá unnið hörðum höndum að því að auka veg og virðingu kvennastarfa í samfélaginu. Því er sannarlega ekki lokið, en konur hafa heldur ekki gefist upp. Verkalýðshreyfingin, með sterkar konur í fararbroddi, mun halda áfram að krefjast sanngjarns verðmætamats. Við vitum að samfélagið virkar ekki án ræstingarfólks, uppeldis- og umönnunarstétta, hjúkrunarfólks og annarra kvennastétta.

Móttökuskilyrði fyrir jafnréttisfræðslu, greiningum og tillögum að úrbótum á vinnustöðum breyttust ekki heldur af sjálfu sér. Þau breyttust vegna samtakamáttarins sem myndaðist upp úr aldamótum, Femínistafélagsins og allra kvennanna sem stóðu að fjölbreyttu aðgerðunum sem stuðluðu að vitundarvakningunni. Þeirri vinnu er ekki heldur lokið, en breytingin er áþreifanleg.

Nýsköpun?

Kannski er hugtakið nýsköpun bara alls ekki nógu lýsandi fyrir þær breytingar sem hafa verið að eiga sér stað á vinnumarkaði. Eða öllu heldur: Kannski er hugtakið ekki nógu lýsandi fyrir það sem almennt er talið æskilegt og eftirsóknarvert á vinnumarkaði. Að við sköpum eitthvað nýtt. Að við bætum einhverju við.

Tækniframfarir, umhverfislausnir og allskonar hlutir sem gera lífið þægilegra og skemmtilegra eru vissulega spennandi. En hreinlæti, velferð og menntun fólks eru forsenda þeirra framfara, forsenda sem var allt of lengi tekið sem sjálfsögðum hlut. Svo eru fleiri þættir sem skipta máli, s.s. samkennd, öryggi, víðsýni, frelsi og jafnrétti. Og þá er gott að vinnustaðir reiða sig ekki lengur bara á ólaunaðar aðgerðir félagasamtaka og aktívista úti í bæ, heldur eru tilbúin að fá til sín sérfræðinga á sviði jafnréttis- og fjölbreytileikamála.

Ég er ekki að gera neitt nýtt. Ég er að segja það sama og konur hafa sagt í aldanna rás. Alveg eins og ræstingar, uppeldi, umönnun og hjúkrun hafa verið iðkuð í aldanna rás. Það er gildismatið, verðmætamatið og móttökuskilyrðin sem hafa breyst og þess vegna er jafnréttisiðnaðurinn kominn til að vera.

Nýsköpun snýst ekki endilega um að finna upp eitthvað nýtt. Hún snýst að stórum hluta um að endurskilgreina atvinnulífið. Skapa pláss fyrir það sem alltaf hefur verið til. Endurskilgreina mikilvægi og breyta verðmætamati. Sú nýsköpun er ekki unnin af stórkostlegum snillingum sem finna upp nýja tækni. Hún var unnin af öllum þeim konum sem í gegnum tíðina hafa haft hugrekki og styrk til að krefjast breytinga. Það er vegna þeirra sem ég get titlað mig kynja- og fjölbreytileikafræðing. Það er vegna þeirra sem fyrirtæki borga mér í dag fyrir andófið sem samfélagið vildi ekki fyrir 20 árum.

Takk stelpur. Það er ykkur að þakka að ég er í skemmtilegasta starfi í heimi. Og ég lofa að gera allt sem ég get til að stuðla að áframhaldandi endurskilgreiningu og breyttu verðmætamati svo fleiri fái að njóta.

— — —Nýsköpun á jaðrinum í samstarfi við Nýsköpunarvikuna

— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **
fyrri grein
Birtingarmyndir: Samfélagsmiðlar: Sjálfið

Mest lesin
Tilveruréttur minn

Mælum með
Láglaunastörf: Skúra, skrúbba og strita

næsta grein
Skaðaminnkandi hugmyndafræði og sjálfsákvörðunarréttur einstaklinga - Frú Ragnheiður


Lesa meira um...

Jafnrétti og nýsköpun – Just consulting