Hún er stjórnsöm, hann er stjórnandi

16. júní 2020

Höfundur:
Alma Dóra Ríkarðsdóttir
@rikardsdottir
Verk í sölu á Uppskeru listamarkaði
   
Myndahöfundur:
Stefanía Emils
@stefaniaemils
stemils.cargo.site


Kynjamisrétti er rótgróið fyrirbæri. Það liggur ekki aðeins uppi á yfirborðinu þar sem allir sjá það, heldur einnig í allskyns ómeðvitaðri hegðun okkar allra. Þar á meðal er kynjuð orðræða.

Hefur þú einhverntíma velt fyrir þér hvert karlkynsorðið er fyrir; tík, tussa, mella, hóra, tepra, pempía, drós, gála eða glyðra? Ég held nefnilega að þau séu ekki til. En það er ekki nóg með að sum orð virðist bara vera til fyrir eitt kyn, heldur notum við líka orðin okkar mismunandi eftir því hverjum við erum að lýsa.

Rannsóknir hafa sýnt að í atvinnulífinu eru konur gjarnan gagnrýndar fyrir sömu eiginleika og körlum er hrósað fyrir. Þó frammistaða karla og kvenna sé sambærileg þá notum við ólíkan orðaforða eftir kyni þeirra sem um er rætt. Fleiri neikvæð orð eru notuð til að lýsa konum og fleiri jákvæð orð eru notuð til að lýsa körlum. Kona sem stendur fast á sínu, lætur ekki vaða yfir sig og segir sína skoðun er frekja. Karl með sömu eiginleika er ákveðinn. Kona sem tekur frumkvæði, segir fólki hvað það á að gera og fylgir hlutunum eftir er stjórnsöm. Karl með sömu eiginleika er stjórnandi. Kona sem brennur fyrir því sem hún gerir, vinnur verkin af innlifun og tekur fjölbreytta þætti inn í reikninginn við ákvarðanatöku er óskynsöm og tilfinningarík. Karl með sömu eiginleika er ástríðufullur.

Því er reglulega kastað fram að til þess að yfirbuga kynjamisrétti þurfi konur bara hreinlega að hafa meiri trú á sjálfri sér. En ég sé ekki hvernig það á nokkurn tímann að gerast á meðan við kerfisbundið rífum þær niður í leik og starfi. Kynjuð orðræða fyrirfinnst nefnilega ekki bara í atvinnulífinu, heldur allt í kringum okkur. Í skólabókum barnanna okkar, heilbrigðiskerfinu, hrósunum sem við gefum hvoru öðru og í daglegu tali.

Hvernig eiga konur að öðlast meira sjálfstraust, ef þær eru sífellt gagnrýndar og rifnar niður? Hvernig eiga konur að vera ákveðnari, ef þeim er sagt að þær séu frekar og yfirþyrmandi þegar þær sýna ákveðni í verki? Hvernig eiga konur að hafa trú á eigin hæfni og getu þegar það er kerfisbundið gert lítið úr þeim?

Svarið er einfalt, þær geta það ekki og þær eiga heldur ekki að þurfa þess. Því konur eru ekki vandamálið og þær hafa aldrei verið það. Vandamálið er að við sem samfélag komum öðruvísi fram við konur en karla. Við höfum öðruvísi væntingar til þeirra og tökum öll þátt í kynjakerfinu með hegðunarmynstri sem viðheldur misrétti. Rót vandans liggur í hegðun okkar og það er okkar ábyrgð að uppræta hana. Við þurfum öll að líta í spegilinn og velta fyrir okkur hvað við getum sjálf gert betur.

Ég legg til að við byrjum á því að brjóta upp okkar eigin kynjuðu orðræðu.

Mig langar því að skora á þig að hugsa út í orðin sem þú velur að nota. Stuðla þau að því að byggja fólk upp, eða rífa það niður? Notar þú sömu orð til þess að lýsa sömu hegðun hjá ólíkum kynjum? Metur þú sömu eiginleika jöfnum verðleikum í fari kvenna og karla? Eru hrósin sem þú velur kynjahlutlaus? Segir þú börnunum þínum jafnt að þau séu; falleg, sterk, hugrökk og dugleg, burtséð frá kyni þeirra?

Verum meðvituð um eigin hlutdrægni og pössum upp á okkar eigin hegðun. Það er eina leiðin til að höggva á rætur kynjabundins misréttis.

Munum að orðin okkar skipta máli.


— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: