Frostþurrkað skyr minnkar matarsóun
Aníta og Guðrún og eru tvær ungar konur sem kynntumst í námi í matvælafræði við Háskóla Íslands og þar kviknaði hugmyndin að Frosta skyr. Þær hafa brennandi áhuga á nýsköpun og gæðum matvæla og sameinuðu þennan áhuga í vörunni sinni Frosta skyr, sem hægt er að fylgjast með á vefsíðunni frostiskyr.net eða á instagram reikningnum @frostiskyr. Þær erum komnar áfram í topp 10 í Gullegginu og verða úrslitin tilkynnt í kvöld, föstudaginn 16. október. Þeim tókst að búa til frumgerðina af Frosta skyr á aðeins 6 vikum og unnu þær innanlands keppni Ecotropheliu, Evrópukeppni í vistvænni nýsköpun matvæla. Næsta sunudag munu þær síðan taka þátt fyrir Íslands hönd í keppninni sem átti að vera haldin í París, en verður vegna COVID19 haldin rafrænt í ár.
Hugmyndin að Frosta skyr kviknaði í janúar 2020 í vöruþróun matvæla sem er áfangi í Háskóla Íslands, en þar var markmiðið að þróa vöru úr þörungum. Í framhaldinu bauðst Anítu og Guðrúnu vinna hjá hátæknifyrirtækinu VAXA sem sérhæfir sig í þörungaræktun. Þar unnu þær í sumar við þörungaræktun og fengu að kynnast helstu kostum þörunga, m.a. þörungnum spírulínu.
Verkefnið felst í því að framleiða Frosta, frostþurrkaðar og laktósafríar skyrflögur með vanillubragði og blárri spírulínu sem gefur skyrinu fallegan bláan lit og eykur jafnframt næringargildi þess. Frosti er hágæða íslenskt próteinduft sem einnig er hægt að nota sem hefðbundið skyr, einungis með því að blanda vatni saman við skyrflögurnar og þá fæst skyrið á sínu hefðbundna formi. Þá er Frosti tilvalinn sem próteingjafi í heilsuþeytinga.
Frostþurrkun eykur stöðuleika skyrsins og þar með útflutingsmöguleika á því. Anítu og Guðrúnu langar að frostþurrka skyr sem komið er á síðasta söludag og minnka þar með matarsóun á skyri, en um 10 þúsund skyr skömmtum er hent á einungis 12 mánuðum hjá einni verslunarkeðju á Íslandi. Með Frosta gefst tækifæri að selja skyr umbúðalaust í fyrsta skipti.
[Á myndinni má sjá einn skammt af Frosta skyri.]
Afhverju ætti Forsti að vinna Gulleggið?
„Við höfum unnið dag og nótt að vörunni okkar og höfum endalausa trú á henni. Með okkar vöru opnast áður óþekktir möguleikar fyrir íslenskt skyr bæði á erlendum sem og innlendum markaði. Auk þess gefst tækifæri á því að minnka umbúðir utan um matvæli og jafnframt sporna gegn matarsóun á skyri. Það sem að sker okkur úr frá hinum hugmyndunum í Gullegginu þetta árið er að við erum eina matvælið og einnig eina teymið sem er komið með fulltilbúna vöru í hendurnar sem búið er að prófa og er nánast söluhæf.“