Sjáumst

9. júlí 2019

Höfundur:
Eva Sigurðardóttir
@evasigurdar
@evasig__
evasigurdar.com
   

Ég trúi ekki að skiptinemadvölin sé á enda. Fimm mánaða ævintýri sem flaug hjá á ljóshraða. 

Tyrkland er ótrúlegt land. Draumur og kaós. 

Ég líð um. Ég vissi ekki við hverju ég ætti að búast og trúi því varla hversu mögnuð upplifun þetta hefur verið.

Ég er svo ótrúlega þakklát fyrir tækifærið. fyrir fólkið. fyrir lærdóminn. 


Óvissan sem varð að hversdagslífi

og fjarlæg plön sem urðu að veruleika.


Göturnar sem voru áður framandi – orðnar heimili mitt og það á örskammri stundu..

Fólksfjöldinn sem ég áður kveið orðinn hversdagslegur og huggandi.

Endalaust magn fólks sem starði – starir enn og starir meira.


Ruglingslegar almenningssamgöngur og óþreyjufullir bílstjórar, bílferðir án bílbeltis og gatnakerfi sem ég er farin að þekkja þrátt fyrir að  „meika engann sens“. 

Endalaus straumur fólks sem fer yfir á rauðum, og þar á meðal ég.

Götukettir og hundar sem eiga sig sjálfir.
Góðhjarta fólk sem klappar, klórar og knúsar. Góðhjarta fólk sem fæðir og næðir.

Matarmenning sem á hug minn og hjarta.
og maga, garnir, ristil.

Tveir kossar – tvö faðmlög.
Ástfangin pör í hverju horni og milli horna. Leiðast. Í sleik.

Heldra fólk að drekka çay og horfa á mannmergðina.
Spjallar um daginn og veginn (án þess að ég viti nokkuð um innihald spjallsins verandi algjörlega ófær um að skilja tungumálið – nema hæ, bæ, takk og guð verði með þér)


Mér hefur sjaldan fundist ég jafn örugg.
Ég er ekki hrædd. Hér passar fólk upp á mig og ég upp á það.
Mest það samt upp á mig


Menning og saga í andrúmsloftinu.
Hús að hruni komin og götulistaverk í öllum skúmaskotum.

Pólitískur áróður.
Meiri pólitískur áróður.
Enn meiri pólitískur áróður.

Bjöguð enska og alls engin enska
Merhaba, Tesekkür ederim. Iyi akșamlar.


Allir þekkja alla og enginn þekkir ekki neinn
Hvað finnst þér? Ætlaru að koma aftur?


Fögnuður. Söknuður.

Hjartað mitt er nú þegar fullt af söknuði.
Aldrei hefur staður orðið að heimili á svona skömmum tíma.
Aldrei hefur fólk gripið eins hratt um hjarta mitt
og aldrei hefur lífið orðið eins mikið mitt eigið líf án áreynslu.

Þetta hefur verið ein besta upplifun lífs mín með hæðum og lægðum. 

Tyrkland, land sem varð að heimili. 

Istanbúl, borg sem varð að stað sem ég mæli með að allir heimsæki.


Ég hef komið inn á tyrknesku gestrisnina áður – en ég get ekki minnst nógu oft á allt þetta fólk sem tók á móti mér og kom fram við mig eins og drottningu. Sama hversu mikið þetta fólk á í sig og á, þá er það tilbúið að deila því öllu með mér. 

og því finnst ekkert sjálfsagðara.


Ég skil ekki viðhorf Evrópubúa til Tyrkja og Tyrklands. Fjölmiðlar menga og brengla ímynd landsins sem veldur því að fólk er hrætt. Fjölmiðlar mata almenning með röngum upplýsingum og ala á hræðsluáróðri og fordómum. Ábyrgð fjölmiðla er mikil; sýnið allar hliðar, fjallið um þjóð ekki bara pólitík. Og kæri almenningur lesið ykkur til um framandi menningu og beitið gagnrýnni hugsun á fréttir og umfjöllun.   


Hver hefði haldið að ég myndi opnast og breytast svona mikið á örfáum mánuðum. Allt þetta fólk sem braut niður veggi og kenndi mér svo margt.

Stútfull af innblæstri og vonandi örlítið betri manneskja þökk sé öllu því góða fólki sem ég kynntist kveð ég Tyrkland með söknuði – og eins tilhlökkun að heimsækja land og þjóð aftur. Því fyrr því betra.

Sjáumst seinna Tyrkland.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: