Hár hennar fellur í stríðum straumum
Niður herðarnar, eftir andlitinu
Sveigir upp að kjálkalínu
eins og lokkar í fjallshlíðum sem skapa áfasta mynd í landslagi þjóðar
Það er heiðbjart ekkert rok engin rigning eins óvanalegt og það gerist
Samt liggur vandi heimsins á herðum hennar
Áhyggjur af heimi
þungi yfir tilveru
Áður en hún fór út í morgun passaði hún að brókin væri symmetrísk
Engar línur féllu á húð eða sæust á rassvasa
Að hárið væri í bylgjum eins og óstírlátt hafið, eins og snjóstraumarnir í Fjallinu
Broshrukkur velkomnar en allt annað forboðið í óraunhæfum kröfum sem fengnar voru í arf
Aldrei pils bara buxur uppháar klíp í kinnar til að fríska, svo út í vinnu númer eitt
Hún hefur áhyggjur af heimi og framtíð
Hvernig kröfurnar hafa skapað eilífan vítahring
Fjallið sést í skrifstofuglugganum en það er fjarlægt, ekki eitt með henni
Það hefur lent í markaðssetningu eins og allt annað
orðið að tákni, að ímynd
eins og hún