Ljóð: Dagur

22. janúar 2019

Höfundur:
Lára Sigurðardóttir

   

Hún vaknar en fer aftur að sofa. Hún vaknar aftur, eins og eftir að hafa sofið að eilífu. Henni finnst eins og að augun séu bólgin og það sjái hana enginn. Það fyrsta sem hún gerir er að hugsa og fara yfir alla draumana, suma stutta – aðra langa. Oftast skilur hún ekkert í þessu öllu en þeir fylgja henni restina af deginum.

Hún kveikir alltaf á útvarpinu frammi í eldhúsi áður en hún fer í sturtu þó svo hún heyri ekkert í því á baðherberginu. Hún fer í sturtu, vatnið er lengi að hitna og þrátt fyrir allt finnst henni orðið þægilegt að fá hálf volgt vatnið yfir sig. Í þetta skiptið syngur hún ekki í sturtunni og á meðan að hún þurrkar sér með handklæðinu hugsar hún einmitt um það, að hún hafi ekki verið að raula eitthvað lag í sturtunni.

Hún sýður egg, hitar vatn í hraðsuðukatli fyrir kaffið í pressukönnunni, sker nokkur jarðaber í bita og setur þau út á grautinn, ristar eina rúgbrauðssneið í ristavélinni, setur einn þriðja af agúrku á diskinn.

Hún svarar skilaboðum, skrifar innkaupalista, hringir í manninn sinn og segir honum að hún elski hann. Á meðan á öllu þessu stendur drekkur hún kaffið og borðar.

Hún hreyfir sig hljóðlega, eins og að hún vilji ekki vekja aðra. Það er samt enginn annar í íbúðinni.

Hún fer á klósettið og sér að það kemur enn smá blóð í nærbuxurnar, hún er greinilega ennþá á einhverskonar blæðingum. Hún skiptir um nærbuxur og fer reyndar líka í nýjar buxur þó svo að það hafi ekki komið blóð í gegn.

Hún fylgist með tímanum, hún vill ekki koma of seint.

Draumarnir verða skírari núna.

Henni langar eiginlega ekki út og hún var að vonast til þess að það væri aftur mikil rigning og grátt og dimmt svo að hún gæti falið sig í regnjakkanum.

Sólin skín.  

Hún labbar alla leiðina og finnst eins og að allir séu að horfa á hana eða taki eftir henni. Hún er vön þessu ástandi, það er eins og að hún sé með heyrnatappa og undir vatni í baðkari því hún finnur ekki fyrir umheiminum.

En þar er hún nú samt.

Sonur hennar er glaður að sjá hana þó svo að hann sýni það ekki neitt sérstaklega afgerandi.

Hann er tengingin hennar við umheiminn.

Stundum finnst henni hann vera byrði. En akkúrat núna brosir hún bara. Hún tók eftir því að hann gat auðveldlega labbað yfir þröskuldinn án þess að halda við dyrastafinn. Eftir smá puð sest hann loksins í kerruna og þau fara í átt að búðinni.

Hún man utan að fyrstu vöruna sem að hún hafði skrifað á innkaupalistann. Eftir að hafa tekið hana og bætt við tveimur vörum í körfuna sem að hún veit að voru ekki á listanum tekur hún innkaupalistann úr töskunni. Þau klára listann og fara í átt að kassanum. Sonur hennar situr enn í kerrunni og hún dregur litlu innkaupakörfuna á eftir þeim. Í röðinni á kassann er önnur móðir með tvo syni og þeir eru þreyttir og vilja dót og nammi og rífast og slást. Mamma þeirra er ennþá þreyttari. Hún hugsar þá hversu mikið meira vakandi hún er. Hún pakkar vörunum í pokann og setur neðst í kerruna. Svo  labbar hún út, það er erfitt að keyra kerruna sem er orðin töluvert þyngri af vörum og vera með einn fullan innkaupapoka í hendinni.

Sonur hennar byrjar að gráta í lyftunni á leiðinni upp í íbúðina. Hún tekur hann úr kerrunni og setur í staðinn innkaupapokann í sætið. Hún labbar með son sinn í fanginu og stýrir kerrunni með einni hendi allan ganginn og inn í íbúðina.

Hann hættir að gráta og þau fá sér ber og horfa á teiknimynd.

Hún hugsar að það sem að þau voru búin að ákveða að elda um kvöldið er það sem hana langar minnst til þess að borða. Hún nær í tölvuna og skoðar sushistaði, hvar sé best að panta og fá sent heim. Hún velur stað og velur matseðil með 30 stykkjum, plús edamame baunum. Hún pantar ekki oft mat og finnst eins og að hún þurfi að biðja um leyfi frá einhverjum. Hún hringir í manninn sinn og segir honum frá áformum sínum varðandi kvöldmatinn, honum líst vel á þetta. Maðurinn sem kemur með sushiið finnur ekki íbúðina, enda þarf að opna auka hurð við enda gangsins til að komast að henni og hún skilur hann vel. Sonur hennar fær skyr, brauð og gúrku stangir sem að hann dýfir í sojasósu. Maðurinn hennar kemur heim og bæði hún og sonur þeirra verða glöð yfir því að sjá hann.

Þau þurfa bæði á honum að halda.

Þegar að þau eru búin að borða vill hún hringja í mömmu sína. Enginn nennir að ganga frá eftir matinn. Hún saknar mömmu sinnar en nýtur þess að vera langt í burtu frá henni.

Maðurinn hennar svæfir soninn í svefnherberginu, hún gerir ekkert á meðan. Þau horfa saman á sjónvarpið, það er uppáhalds þátturinn hennar. Maðurinn hennar sofnar yfir sjónvarpinu. Sonur hennar grætur og hún fer inn og huggar hann. Gefur honum vatnssopa og faðmlag og situr í smá stund í stólnum við hliðina á rúminu svo að hann viti að hún sé nálægt honum. Svo fer hún út úr herberginu, maðurinn hennar er vaknaður og gengur frá í eldhúsinu og hún minnir hann á að allt plastið frá sushibökkunum sé endurvinnanlegt. Og þau hlæja að því að hún skipti sér alltaf pínu að því sem hann gerir.

Hún horfir á fólk dansa í byggingunni sem er á móti, hún segir manninum sínum hvað henni finnist skemmtilegt að horfa á aðra dansa. Honum finnst það líka skemmtilegt og þau brosa saman.  

Hún segir við manninn sinn að hún vilji fara upp í rúm að lesa. Hún segir samt líka að hún komi fram seinna að bursta tennur.

Henni finnst notalegt að vera bara ein í rúminu og helst sofna áður en maðurinn hennar kemur í rúmið. Rumska svo við það þegar að hann kemur í rúmið og kyssa hann og segja góða nótt.

Þegar að hún les ein í svefnherberginu heyrir hún líka í syninum anda, hann sefur í rúminu sínu sem er í sama herbergi, svo hún er í rauninni ekki ein.

En næstum því.

Hún fer aldrei fram að bursta tennur heldur vaknaði bara þegar að maðurinn hennar kom inn í herbergið og slökkti á lampanum hennar og kyssti hana góða nótt.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Flæði: