19. greinar málin

14. maí 2021

Höfundur:
Lenya Rún Taha Karim
@lenyarun
@lenyarun
   

Eins og mörg vita af, þá fór fram sakfelling í máli í síðustu viku. Var það fjórða sakfellingin í röð mála sem kölluð hafa verið 19. greinar málin . Í heild sinni eru 19. gr. málin mál sjö einstaklinga sem öll eiga það sameiginlegt að hafa verið handtekin á mótmælum til stuðnings fólki á flótta fyrir meint brot á lögreglulögum, þ.e.a.s. fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að mótmæla ekki á tveimur mismunandi almenningsstöðum, annars vegar fyrir framan Alþingi og hinsvegar í anddyri dómsmálaráðuneytisins.

Fyrir mér snýst þetta þó um réttinn til að mótmæla ómannúðlegri meðferð á flóttafólki, sem er vissulega stjórnarskrárvarinn réttur. 

Ég var ekki á staðnum þegar þessi mótmæli áttu sér stað en eins og flest allir aðrir heyrði ég af þessu og fylgist með í gegnum samfélagsmiðla og fréttirnar. Af atvikalýsingunni að dæma og lesa er eina sönnunarbyrðin í öllum málunum sem snúa að aðgerðarsinnunum sjö vitnisburður lögreglu, sem virðist vera tekinn fyrir sönnunargagn í málunum frekar en vitnisburður þar sem að hann virðist alfarið nægja til að sakfella öll þau sem nú hafa farið fyrir dóm; Hjálmar, Borys, Kára og Elínborgu.

Nú spyr lesandi sig mögulega hvað þessi 19. gr. lögreglulaga er og afhverju er verið að gera svona mikið mál úr þessu? Umrædda lagaákvæðið hljóðar svo: „Almenningi er skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri.“, þetta meikar sens, ekki satt? Væntanlega er almenningi skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, en í lagalegu samhengi og miðað við ofnotkun réttarkerfisins á þessu lagaákvæði eru nokkrir kvillar sem koma upp í huga við beitingu lagaákvæðisins á eins íþyngjandi hátt og hefur verið gert í máli sjömenninganna.

Frá mínu sjónarhorni er vandinn með þetta lagaákvæði einfaldlega sá að það er of mikið svigrúm til túlkunar á því hvað telst að „halda uppi lögum og reglum“, ég spyr mig hvar mörkin liggja og hvað telst til þess að halda uppi lögum og reglum?

Hér þurfa fyrirmæli lögreglu að vera réttmæt og lögmæt til þess að geta beitt þessu lagaákvæði en hver dæmir hvaða fyrirmæli eru réttmæt og lögmæt? Er þetta matsbundið lagaákvæði? Spurningarnar eru margar og hafa verið fordæmi fyrir því að einstaklingar hafi verið sakfelldir oftar en einu sinni á grundvelli brots á 19. gr. lögreglulaga, sem er einfaldlega alltof víðtæk sbr. Gálgahraunsdóminn fræga. 

19.greinar málin eftir Lenyu Rún

Til að víkja að málinu í stærra samhengi þá reynir einnig á réttinn til að mótmæla sem er orðað svo í 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar: „rétt eiga menn á að safnast saman vopnalausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannafundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.“ án þess að fara of lagalega út í þetta, velti ég fyrir mér hvernig skilgreiningin á ,,óspektir” er í þessu samhengi. Í umtöluðu mótmælum voru allir vopnalausir þrátt fyrir grunsemdir lögreglu í eitt skipti um að mótmælendur ætlaði að vera með einhverskonar bálköst. Samt sem áður eru mótmæli stjórnarskrárvarinn réttur einstaklings í því réttarríki sem við búum í og það gengur einfaldlega ekki að beita 19. gr. lögreglulaga fyrir sig í hvert skipti sem lögreglan vill stoppa mótmæli sökum þess að það er eina lagaákvæðið nógu víðtækt til að ná utan um valdbeitinguna þeirra.

Að handtaka manneskju og flytja upp á lögreglustöð er alvarlegt inngrip inn í líf einstaklings og það þarf að vera skýr lagaleg heimild fyrir því. 

Mér var bent á að af fyrri dómaframkvæmd að ráða virðast mörkin hjá samspili 3. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar og 19. gr. lögreglulaga liggja í að það megi mótmæla en það má ekki koma í veg fyrir að einhver sinni skyldu, þannig að t.d. máttu mótmæla brottvísun en þú mátt ekki koma í veg fyrir að einhverjum verði brottvísað. Var samt verið að koma í veg fyrir að einhver sinni skyldu sinni í þessum mótmælum? Maður spyr sig.

Þessar handtökur sem hafa farið fram vegna mótmæla fyrir utan dómsmálaráðuneytið eða Alþingishúsið eru skýr dæmi um að réttindi flóttafólks og hælisleitenda eru neðarlega í forgangi hjá stjórnvöldum. Mótmælin 11. mars þar sem Elínborg fékk alvarlegustu kæruna á sig var hluti af 8 mánaða herferð fyrir bættum réttindum flóttafólks og var helsta markmiðið að koma á fundi með yfirvöldum til að ræða kröfur sem flóttafólkið sjálft hafði sett fram til að bæta hag flóttafólks hérlendis.

Sannleikurinn er einfaldlega sá að flóttafólk og fólk tengt No Borders hreyfingunni á Íslandi hefur tekið ótal slagi sem fáir Íslendingar hafa tekið eða þora að taka.

Meðferðin á flóttafólki á Íslandi er til skammar og við getum að sjálfsögðu gert betur, en gerum það þó ekki.

No Borders hefur ítrekað bent á það og verið í framlínunni í baráttu um réttlátari og mannúðlegri meðferð á hælisleitendum og flóttafólki og það er ekki annað hægt að gera en að bera virðingu fyrir þeim baráttuhug og drifkrafti sem þar er að finna. Ótalmörg mótmæli hafa átt sér stað á síðustu árum og hafa nokkur þeirra endað með afskiptum lögreglu og handtökum. Hér sýnir það okkur að þessir einstaklingar sem voru handteknir og sakfelldir vegna brots á 19. gr. lögreglulaga máttu vita afleiðingarnar, en héldu þó áfram. Ef að baráttugjarnir einstaklingar, eins og fólkið sem var handtekið í þessum mótmælum, efla ekki rödd flóttafólks og hælisleitenda á Íslandi, mun einhver annar gera það?






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
BROTNAR GREINAR