Kynlífsvinna, með eða á móti?
Konum hefur lengi verið kennt og sagt að hugsanir um kynlíf, ánægju og vald yfir eigin líkama séu ógeðfelldar, óhreinar og óviðeigandi. Hvað þá ef þú uppfyllir þessar hugsanir og stundar kynlíf, því þig langaði það, og endar fullnægð. Guð hjálpi mér, og þér, elsku kona, grey, fórnarlamb syndanna. Þú ert nú talin skítug, óalandi og óferjandi, ógeðsleg og ekki viðbjargandi. Þú ert drusla.
Kynlíf er tabú og fólk (lesist: konur og kynsegin) sem stundar kynlíf er tabú. Kynfrelsi kvenna og kynsegin hefur aukist þó enn séum við að shame-a, tame-a og name-a (kalla fólk niðrandi nöfnum, tjóðra fólk sem hagar sér ekki á ákveðinn hátt og kasta á það skömm).
Druslustimpillinn er eitthvað sem flestar konur kannast við að hafa fengið á sig í einhverri mynd.
Þú vildir ekki gera þetta, DRUSLA. Þú vildir gera þetta, DRUSLA. Þú sagðir eitthvað vitlaust, DRUSLA. Þú sagðir ekki neitt, DRUSLA. Þú dróst þig í hlé, DRUSLA. Þú tókst þér pláss, DRUSLA.
Ýmislegt hefur verið tekið fyrir hjá þátttakendum Druslugöngunnar frá upphafi hennar 2011, en allt miðar að því að koma þeim skilaboðum áleiðis að ofbeldi er alltaf gerendum að kenna, og skömmin er þeirra. Fólk á sinn eigin líkama og valið er þeirra: Viltu fá þér sex bjóra, fara í vinnu í þröngu og stuttu pilsi, fara út í göngutúr að kvöldlagi, senda af þér nektarmynd (með samþykki viðtakanda), taka upp myndband með bólfélaga (með samþykki beggja/allra), selja af þér erótíska mynd eða stunda kynlíf gegn greiðslu. Valið er þitt og það veitir hvorki leyfi né frípassa annarra til að beita þig ofbeldi eða fara yfir þín mörk.
Árið 2011 var helsta áhersla göngunnar sú að konur máttu klæðast því sem þær vildu og drekka eins marga bjóra og þær vildu, án þess að það réttlætti hegðun og gjörðir ofbeldismanna. Margt hefur breyst frá því þá en þó svo fátt… Samfélagsumræðan er ívið þolendavænni, skilningur meiri og brotaþolar eiga margir hverjir auðveldara með að stíga fram og segja frá. Ábyrgð og álag hefur að einhverju leyti færst af þolendum yfir á gerendur, viðbragðsaðila og réttarvörslukerfið. Kallað hefur verið eftir kerfisbreytingum sem auðveldar þolendum ofbeldis að takast á við eftirköst þess. Sumt hefur breyst, en annað ekki.
Umræðan í samfélaginu síðustu viku hefur mikið beinst að þátttakendum á Only Fans, kynlífsvinnu, þolendum vændis, mansali og klámi. Allt hófst þetta með nokkrum röddum í einu hlaðvarpi og annarri rödd sem fannst skömm af þessum röddum og því sem þær sögðu. Snjóboltinn fór að rúlla og mörghundruð manns hafa tjáð sig um téðar raddir og líkama þeirra sem beita þeim.
Umræðan hefur farið um víðan völl í kjölfarið: Fólk tjáir sig um nauðgunarmenningu og kynlífsverkafólk, stéttaskiptingu og kvennaklíník, hamingjusömu hóruna og skúringar, jákvæðar og neikvæðar upplifanir, jákvæð og neikvæð viðhorf, ýmiskonar reynsluheima og afleiðingar, forsjárhyggju og áfallastreituröskun, SWERF-isma og and-femínisma, traumablæti og feðraveldið, afglæpavæðingu og sænsku leiðina, völd og stjórnleysi. Hvað með börnin?!?
Þetta er flókið umræðuefni, í ljósi fortíðar, nútíðar og framtíðar. Sagan er gegnumsýrð af kúgun á konum, feðraveldið allsráðandi og karlmenn hafa eignað sér líkama kvenna og hlutgert þá, og gera enn. Umræður síðastliðinna daga hafa spíralast út úr öllu valdi, fólk blammerað hvert annað vegna skiptra skoðana og þær umpólast vegna mótþróa og trúar fólks á eigin skoðunum.
Ég hef séð fólk ásaka annað fólk um and-femínisma og það að standa ekki með þolendum ofbeldis (t.d. mansals). Segja það óreynt í málefnum sem þessum og telja sig hafa meiri reynslu og þekkingu til þess að mynda sér skoðun á kynlífsiðnaðinum.
Annað fólk telur þetta fólk ganga á kynfrelsi sitt og annarra. Telur það hafa fordómafull og íhaldssöm viðhorf til kynlífs og kláms. Segir það vera femínista nema þegar um ræðir kynlífsverkafólk (SWERF). Þannig fær þetta fólk að heyra að það sé blint á eigin forréttindi og staðnað í skoðunum.
Þessi pólarísering sem hefur skapast er svo skaðleg umræðunni. Þetta er ekki svart eða hvítt. Með eða á móti kynlífsverkavinnu. Með þannig umræðu gleymast raunveruleg markmið hennar — vinnan gegn ofbeldi og að úrræðum sem í boði eru fyrir þolendur ofbeldis. Við erum öll í sama liði. Við viljum að konur og kynsegin lifi öruggu lífi, hvort sem þau velja að stunda kynlíf, selja kynlíf eða ekki.
Við þurfum ekki öll að hafa sömu skoðanir og aðferðafræði. Núans er eðlilegur. En árásir, rökleysa og skortur á virðingu kemur okkur hvergi. Það er eðlilegt að vilja beita röddum sínum og hvað þá með jafnrétti að leiðarljósi, en við verðum að muna að hlusta líka. Hlusta á hvert annað, hlusta á raddir þeirra sem hafa ekki fengið pláss hingað til, hlusta og taka til greina önnur sjónarmið en bara okkar eigin.
Ofbeldi sem kynlífsverkafólk er beitt er aldrei því að kenna eða þeirra sem styðja við það. Ofbeldi er ofbeldi og ofbeldi er gerendum að kenna. Við getum minnkað skaðann; unnið gegn ofbeldi og unnið úr afleiðingum þess, en það gerum við ekki með því að hætta að hlusta. Það er ekki til ein fullkomin leið, því miður. En það er mikilvægt að geta rætt hlutina á jafningjagrundvelli og þannig fundið þá leið sem gerir alla þolendur og mögulega þolendur öruggari, líka þá sem stunda kynlífsvinnu.
Höfundur er meðlimur í skipulagsteymi Druslugöngunnar.