Á undanförnum árum hefur hinseginfræðsla fyrir unglingastig orðið að föstum lið í skólastarfi. Þetta er gífurlega mikilvægur liður í því að stuðla að jafnrétti og umburðarlyndi í garð þeirra sem ekki falla inn í hið samfélagslega norm. En hvers vegna er það að hinseginfræðsla virðist bæði byrja og enda á unglingastiginu? Yngri börn skilja meira en við gerum okkur grein fyrir og það er ekki síður mikilvægt að við höldum áfram að læra eftir því sem við eldumst og þroskumst. Hvers vegna er fólki sem stefnir á að vinna náið með stórum og fjölbreyttum hópi fólks ekki gert skylt að læra grunninn í hinseginfræðum og jafnréttisfræðslu almennt?
Það eru tvö kerfi sem hinsegin fólk, líkt og allt fólk, þarf að eiga í miklum samskiptum við; það er skólakerfið og heilbrigðiskerfið. Ég vil því setja þessi tvö kerfi og það nám sem þeim fylgir í miðpunkt þessarar greinar, en lengi hefur verið talað fyrir því að hinseginfræðsla sé gerð að skyldu á þessum tveimur sviðum.
Það er mikilvægt að fagfólk sé upplýst um fjölbreytta flóru samfélagsins og að það temji sér rétt og faglegt mál sem gerir ekki ráð fyrir að allt fólk sé ekki hinsegin. En hvaða áhrif hefur það að skóla- og heilbrigðisstarfsfólk geri ráð fyrir kynhneigð, kynvitund eða kyneinkennum fólks á hinsegin fólk?
Skólaárið 2016–2017 sendu Samtökin ‘78 út könnun á líðan hinsegin ungmenna í skólum. Könnunin sýndi að um þriðjungur hinsegin ungmenna upplifðu óöryggi í skólanum vegna kynhneigðar sinnar. Könnunin sýndi jafnframt fram á hversu mikil áhrif kennarar og starfsfólk skólans höfðu á upplifun og líðan þessara ungmenna.
Þegar nemendur voru spurð um fjölda starfsfólks sem væri styðjandi við hinsegin samfélagið gat yfirgnæfandi meirihluti, 97%, nefnt að minnsta kosti eina manneskju af starfsfólki skólans. Þar af voru 82% sem töldu að fleiri en sex starfsmenn væru styðjandi við hinseginleika. Þau hinsegin ungmenni sem fundu fyrir stuðningi og jákvæðni kennara og starfsfólks í garð hinsegin samfélagsins voru meðal annars líklegri til þess að finnast þau tilheyra skólasamfélaginu og voru síður líkleg til þess að vera fjarverandi vegna óöryggis og vanlíðan.
Því miður fundu ekki allir þátttakendur fyrir stuðningi starfsfólks skólanna en rúm 3% sögðu að ekkert starfsfólk innan skólans væri styðjandi við hinsegin fólk. Einnig sögðu 28% þátttakenda að þau hefðu einhvern tímann heyrt fordómafull ummæli í garð hinsegin fólks frá starfsfólki, 45,8% sögðu að starfsfólk gripi aldrei inn í aðstæður, væru niðrandi ummæli um hinsegin fólk sögð í þeirra viðurvist og 43,6% nemenda sögðust aldrei tilkynna áreitni eða ofbeldi til skólans.
Þar sem styðjandi starfsfólk var færra en 10 og starfsfólk steig ekki inn í þegar um hinseginfóbísk ummæli var að ræða voru nemendur mun líklegri til þess að vera fjarverandi úr skóla vegna óöryggis.
[Myndin hér að ofan, Gleðigatan eftir Elías Rúna, er fáanleg hér á Uppskeru listamarkaði.]
Engar formlegar kannanir hafa verið gerðar á upplifun hinsegin fólks innan heilbrigðiskerfisins en það væri vert að skoða. Hins vegar skjóta ýmsar sögur upp kollinum af óviðeigandi ummælum og óþægilegum samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk. Miklar lagalegar umbætur hafa átt sér stað innan heilbrigðiskerfisins á síðustu árum í málum trans og intersex fólks. Lög um kynrænt sjálfræði voru loksins lögfest í júní 2019 og ákvæði um vernd og líkamlega friðhelgi intersex barna bættist við í desember 2020.
Þetta eru risastór og mikilvæg skref í átt að réttlátara samfélagi en þó að lagalegi þátturinn sé tryggður þá þarf líka að tryggja að menntun heilbrigðisstarfsfólks taki á jafnrétti og fjölbreytileika. Innan heilbrigðiskerfisins virðist oftast nær gengið út frá því að einstaklingar séu gagnkynhneigðir, sís og markkynja (e. dyadic). Slíkur hugsunarháttur hefur oft komið skjólstæðingum sem og heilbrigðisstarfsfólki í afar óþægilega stöðu.
Fólk í samkynja samböndum þarf trekk í trekk að útskýra sjálft sig fyrir fagaðilum, nokkrar sögur eru til af trans einstaklingum sem hafa þurft að eyða sínum læknistímum í að uppfræða fagfólk um sinn reynsluheim, enn mega karlar sem sofa hjá körlum ekki gefa blóð, og fyrir ekki svo löngu birti sálfræðingur greinar í íslenskum fjölmiðli, uppfullar af rangfærslum og úreltum kenningum um trans fólk.
Framkoma fagfólks í garð jaðarsettra hópa hefur bein áhrif á það hvernig fólk innan þeirra upplifir þjónustuna. Neikvæð reynsla af kerfinu fælir fólk í burtu og getur slíkt haft mjög alvarleg áhrif á líðan og heilsu fólks.
Það skiptir því öllu máli að það fólk sem vinnur í heilbrigðiskerfinu, skólum og almennt náið með fólki sé vel að sér í hinsegin málum og sýni stuðning sinn í verki. Margir stúdentar á heilbrigðis- og menntavísindasviði láta hinsegin mál sig varða og leggja sig fram við að afla sér upplýsingar sjálf þegar námsefni skortir og halda ótrauð áfram að tala fyrir því að gera hinsegin- og jafnréttisfræðslu að skyldufagi. Þó nokkuð hefur aukist af valáföngum sem taka á jaðarsettum hópum og fjölbreytileika, sem er virkilega gott að sjá og vonandi mun sú þróun halda áfram og skila sér loks inn í skylduáfanga.
Valgerður Valur Hirst Baldurs, forseti Q – félags hinsegin stúdenta
queer@queer.is
www.facebook.com/Qfelag