Úr heimi móður: Allir eru að bíða eftir mömmu

25. nóvember 2020

Höfundur:
María Ólafsdóttir
   
Myndahöfundur:
Eva Sigurðardóttir
@evasigurdar
@evasig__
evasigurdar.com


Ég stend í þvottahúsinu að leita að sokkum á son minn. Ég er í nærbuxunum einum fata og með raksápu undir höndunum því mér datt í hug að raka af mér brúskana. Svona einu sinni. Þar sem ég róta í sokkahrúgunni kunngjörist öllum heiminum að það sé gat á nærbuxunum mínum. Á meðan ég velti fyrir mér hvort nærbuxurnar mínar gætu breyst í tusku sé ég hvað pokinn í fatagáminn er orðinn útroðinn. Verð að muna að setja hann í bílinn næst. Fá kannski kallinn til að fara með dósirnar í leiðinni og losa okkur við draslið úr garðinum. Finn á sama tíma götótta sokka og bæti þeim við í pokann. Finn annað par og læt soninn hafa á meðan ég gref eftir nýjum nærbuxum. Það var örugglega gengið frá þessari fatahrúgu síðast í gær. Óhreinn þvottur sem og hreinn hrúgast upp á sama hraða og gras á milli hellna. Hratt, örugglega og kemur alltaf aftur sama hvaða aðferðum er beitt. Kannski svolítið eins og hárin undir höndunum en þau mega damla nokkuð lengi. Hver sér það svo sem núna þegar enginn fer í ræktina eða sund? Frumburðurinn er klæddur og ég kemst í sokka og brjóstahaldara. Þá hefst leitin að hárburstanum fyrir miðbarnið. Hann hefur ekki fundist og hjálparsveit mæðra því kölluð út.  Ég set á mig gleraugun, sé að þau þarfnast hreingerningar og skelli þeim í snöggt bað. Finn burstann á borðstofuborðinu, þar er óhreinn bolli sem ég set í uppþvottavélina, sé að hún er nærri full, set hana í gang og stíg um leið ofan í mylsnu. Hreinu sokkarnir orðnir óhreinir, ryksuga snöggt yfir eldhúsgólfið. Rek tærnar í skál á gólfinu, treð henni inn í skáp. Held því næst fram til að eltast við miðbarnið og greiða mesta flókann úr silkimjúku hári þess. Tek síðan til við mína eigin flækju, greiði það mesta, treð mér í næstu buxur sem ég finn. Það er ólíklegt að þær séu tandurhreinar en þær duga. Yngsta barnið lallar inn á skónum og vill fá vatn að drekka. Ég rétti því glas og það sullar niður. Ég þurrka það upp á meðan ég kem mér í bol og rek um leið augun í eyrnapinna á gólfinu. Um leið og ég hendi honum sé ég að ruslafatan á baðinu er full svo ég tæmi hana. Síðasti sopinn af teinu rennur niður og ég fer inn í eldhús með bollann. Rek augun í nokkrar mjólkurfernur og hendi þeim í pappatunnuna um leið og ég skutla út ruslapokanum. Hendi mér í næstu skó sem ég finn og þægilegri peysu. Treð vettlingum sem hafa gleymst í stiganum í vasann, man þá að taka með snýtubréf og fer að finna pakka, gríp með rúsínur í eldhúsinu í leiðinni og sé það hefur gleymst að slökkva útiljósin. Geri það um leið og ég týni nokkrar flíkur upp úr gólfinu, hendi þeim á snaga, skelli svo hurðinni að baki mér og sameinast fjölskyldunni sem enn og aftur er að bíða eftir mömmu. 

Úr heimi móður eru pistlar eftir Maríu Ólafsdóttur, þriggja barna móður á Seltjarnarnesinu.






— — —


Styrkir þú Vía?

Vía treystir á þitt framlag. Með því að styrkja Vía tekur þú þátt í að halda uppi miðli sem lætur sig jafnrétti og fjölbreytileika varða.

Vía, áður þekkt sem Flóra útgáfa, hefur verið starfandi í 3 ár fyrir gagnrýna lesendur sem langar að kafa undir yfirborðið á marghliða samfélagsumræðu út frá jafnréttissjónarmiðum. Vía hefur frá upphafi fjallað um aðkallandi málefni líðandi stundar og birt fjölda einstakra pistla sem hafa varpað ljósi á ójöfnuð, ójafnrétti, fordóma, íhaldssemi og ofbeldi sem finna má á öllum stigum samfélagsins. Við leggjum áherslu á að upphefja frásagnir þeirra einstaklinga sem valdakerfi fara hvað verst með og valdefla raddir fólks með lifaða reynslu.

Hvert einasta framlag, stórt eða lítið, gerir okkur kleift að halda uppi gagnrýnni jafnréttisumræðu og er ómissandi fyrir áframhaldandi starf Vía.


Styrkja Vía


** Kíktu við á Uppskeru, listamarkaðinn okkar **

Lesa meira um...
Mest lesin
Kynferðislegt ofbeldi: Tilveruréttur minn

Nýjast á Vía
Afmælisrit Vía

Vía mælir með
Loftslagsbreytingar og móðurhlutverkið